Það skattamál, sem hvað mesta athygli hefur vakið hér á landi hin síðari ár, er án efa mál íslenska ríkisins gegn Félagi vatnsvirkja hf. Fjallar það um heimild hlutafélags til að gefa út jöfnunarhlutabréf á grundvelli eignarhluta í Íslenskum aðalverktökum sf. Taldi félagið, að miða bæri við raunverulegt söluverð í því sambandi, en Hæstiréttur stofnverð sem einungis var brot af söluverði, og rökstuddi hann það með vísan til þess, að með útgáfu jöfnunarhlutabréfa væri verið að leiðrétta eigið fé hlutafélaga fyrir áhrifum verðbólgu, það væri og tilgangur endurmatsins, endurmat eigna og útgáfa jöfnunarhlutabréfa væri því tengt.
Í bókinni Útgáfa jöfnunarhlutabréfa – gagnrýnin endurskoðun á dómi Hæstaréttar í máli Félags vatnsvirkja hf. ( 179 bls.), er því haldið fram að þessi niðurstaða Hæstaréttar sé röng. Tilgangurinn með útgáfu jöfnunarhlutabréfa hafi sem sé ekki verið að leiðrétta eigið fé hlutafélaga fyrir áhrifum verðbólgu heldur að aflétta því misrétti, sem hluthafar voru beittir við skattlagningu hagnaðar af sölu eigna, sem almennt var undanþeginn skatti hjá öðrum fram til 1979. Þá sé hvergi í lögum né greinargerðum með þeim unnt að finna nokkra vísbendingu um, að útgáfa jöfnunarhlutabréfa og endurmat eigna sé tengt. Sá skilningur sé auk þess mjög ósennilegur þegar afleiðingar hans eru hafðar í huga.
Bókin Útgáfa jöfnunarhlutabréfa – gagnrýnin endurskoðun á dómi Hæstaréttar í máli Félags vatnsvirkja hf. – hefur að geyma lýsingu á skattlagningu félaga og eigenda eignarhluta í þeim frá 1921 til 1962, einkum við félagsslit, ítarlegar skýringar á ástæðum þess, að útgáfa jöfnunarhlutabréfa var undanþegin skatti með lögum nr. 70/1962, greinargóðar upplýsingar um framkvæmd útgáfunnar á tímabilinu frá 1962 til 1971, frá 1971 til 1979 og frá 1979 til gildistöku fjármagnstekjuskattslaganna 1. janúar 1997. Var tilgangurinn með ritun hennar tvíþættur, annars vegar að benda á hve réttaröryggi í skattamálum er í raun bágborið hér á landi og hversu langt skattyfirvöld eru tilbúin að ganga, til að ná fram niðurstöðu í máli, sem er þeim þóknanleg, og hins vegar að vekja athygli á því, hversu mikilvægar rannsóknir sjálfstætt starfandi skattalögfræðinga eru í þeirri viðleitni að sporna við slíku háttarlagi. Bókin Útgáfa jöfnunarhlutabréfa – gagnrýnin endurskoðun á dómi Hæstaréttar í máli Félags vatnsvirkja hf. – kostar 2.100 kr. og má panta hana á netfanginu agv@skattvis.is