Skattlagning útleigu á íbúðarhúsnæði – heimagisting ofl.
Það verður sífellt vinsælla að fólk leigi út íbúðir sínar um skemmri eða lengri tíma. Með slíku móti má halda að mögulegt sé að leysa talsverð fjárhagsvandræði, gróðinn verði svo mikill. En er það svo? Er kostnaðurinn af útleigunni jafnvel yfirþyrmandi? Og verði gróði er hann þá ekki allur heimtur í skatt?
Á námskeiðin verður fjallað um skattlagningu útleigu á íbúðarhúsnæði vegna langtímaleigu og um skemmri tíma eða allt að 90 daga á ári sem heimagistingu. Farið verður yfir lög og reglur um heimagistingu og gerð grein fyrir muninum á skattlagningu langtímaleigu og skammtímaleigu, hvenær tekjurnar af útleigunni skattleggjast sem fjármagnstekjur með 20% skatti af 50% útleigunnar og hvenær skylt er að greiða venjulegan launatekjuskatt af útleigunni. Auk þessa er rætt hvaða kröfum þarf að fullnægja til að mega selja heimagistingu, hvar sótt er um leyfi til heimagistingar, hvaða áhrif leyfi til heimagistingar hefur á fasteignagjöld svo dæmi sé tekið.
Virðisaukaskattur frá A til Ö
Á yfirborðinu virðist einfalt að gera upp virðisaukaskatt af sölu. Það eina sem þarf að gera er að draga innskatt frá útskatti og skila mismuninum til ríkissjóðs. Þegar nánar er að gáð leynast þó hættur víða og er því gott að rifja upp regluverkið endrum og sinnum. Tilgangur þessa námskeiðs er einmitt að gera það; rifja upp hið gamla og gera grein fyrir nýlegum breytingum á virðisaukaskattskerfinu.
Á námskeiðinu verður fjallað um hvað virðisaukaskattur er, hverjir séu virðisaukaskattsskyldir, hvaða kröfum þeir þurfa að fullnægja til að geta greitt virðisaukaskatt sinn. Einnig verður rætt um aðila sem undanþegnir eru virðisaukaskatti. Þá verður fjallað um hvaða sala sé undanþegin skattskyldri veltu og virðisaukaskatt við innflutning og útflutning. Virðisaukaskattshlutföll greiðslu virðisaukaskatts verða tekin fyrir þar með talin áhrif af vangreiðslu hans, leiðréttingar o.fl.
Gerð rekstrarreiknings og framtals til skatts
Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að gera rekstrarreikning vegna starfsemi sem hefur að geyma upplýsingar um tekjur og gjöld. Tekjufærslan veldur sjaldan vafa en gjöldin eru meira vandamál.
Á námskeiðinu verður kennt með raunhæfum verkefnum að setja upp rekstrarreikning á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um tekjur og gjöld svo og að fylla út skattframtal á grundvelli rekstrarreikningsins.
Innskattur: Uppgjör og skil virðisaukaskatts
Allir sem selja vöru og þjónustu verða að innheimta virðisaukaskatt af andvirði hennar. Innskattur er sá virðisaukaskattur nefndur sem seljandi vöru og þjónustu verður fyrir vegna kaupa á aðföngum til starfsemi sinnar. Seljanda vöru og þjónustu ber að skila hinum innheimta virðisaukaskatti til innheimtumanns ríkissjóðs á tveggja mánaða fresti.
Við skil á virðisaukaskatti má draga þennan skatt frá útskatti af seldri vöru og þjónustu þannig að einungis mismunurinn kemur til greiðslu.
Á námskeiðinu verður farið yfir það hvernig innskatturinn er fundinn, hvort heimilt sé að draga allan þann innskatt sem atvinnurekandi verður fyrir frá útskatti eða einungis hluta af honum, hvort kaup á öllum aðföngum skapi innskattsrétt eða einungis kaup á sumum.
Verktaki eða launþegi
Á námskeiðinu verður fjallað um muninn á verktaka- og launþegasambandi einkum og sér í lagi hvort menn hafi frjálst val um það hvernig þeir gera sig út svo og hvaða afleiðingar það hefur fyrir þá persónulega og fyrirtækið sem þeir vinna hjá ef skattyfirvöld endurskilgreina stöðu þeirra sem verktaka eða launþega.
Úthlutun arðs hjá hluta- og einkahlutafélögum
Á þessu námskeiði verður gerð grein fyrir höfuðeinkennum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Samkvæmt hinni takmörkuðu ábyrgð ábyrgjast hluthafar skuldbindingar félagsins einungis með hlutafé sínu. Vegna þessa er afar þýðingarmikið að binda heimildir hluthafa til að ganga í sjóði félagsins takmörkum. Annars skapast hætta á að viðskiptamenn félagsins verði fyrir tjóni. Út á það ganga meðal annars ákvæði hlutafélagalaga um lækkun hlutafjár og úthlutun arðs.
Sameignarfélög
Sameignarfélagsformið er að mörgu leyti vanmetið rekstrarform. Sannleikurinn er hins vegar sá að það býður upp á alveg ótrúlega skattamöguleika, einkum fyrir þá, sem eru að hefja atvinnurekstur með eignir, sem þeir hafa búið til sjálfir, svo sem uppfinningamenn o. fl. Þá er tiltölulega auðvelt að breyta því í einkahlutafélag án skattlagningar. Á þessu námskeiði verður fjallað um helstu gerðir sameignarfélaga og hvernig ákvörðunarvaldinu er háttað í þeim annars vegar og skattlagningu þeirra við stofnun, meðan á rekstri stendur, og við slit hins vegar.
Skipting skattlagningarréttar vegna tímabundinnar vinnu erlendis
Undanfarin ár hefur orðið stöðugt algengara að menn fari erlendis að vinna. Þegar svo stendur á getur til þess komið að launin sem menn afla séu skattlögð í tveimur eða fleiri ríkjum, það er á Íslandi og hinu ríkinu, vinnulandinu. Á þessu námskeiði verður farið yfir þær reglur sem gilda um skiptingu skattlagningarréttar til launatekna samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum og afléttingu tvískattlagningar í þeim tilvikum sem tekjurnar eru tvískattlagðar.
Endurákvörðun skatta vegna óheimillar úthlutunar arðs
Höfuðeinkenni hlutafélaga er hin takmarkaða ábyrgð. Samkvæmt því ábyrgjast hluthafa heildarskuldbindingar félagsins einungis með hlutafé sínu. Vegna þessa er mjög þýðingarmikið að lágmarka möguleika hlutafa til að taka fé út úr félaginu. Að öðrum kosti er hætt við að hagsmunum kröfuhafa sé teflt í tvísýnu. Á þessu námskeiði verður farið yfir þær reglur sem gilda um úthlutun arðs úr hlutafélögum og skattalegar afleiðingar þess ef hluthafar taka út meira en heimilt er samkvæmt lögum.